Ágúst hættir sem forstöðumaður Zúista

Trúfélagið Zuism mun auglýsa eftir nýjum forstöðumanni félagsins á næstunni. Ágúst Arnar Ágútssson sem verið hefur forstöðumaður félagins síðastliðin 4 ár hefur ákveðið að hætta. Á síðasta aðalfundi í september sl. var kosin ný stjórn sem tók við núna um áramótin og verður það hennar fyrsta verk að hefja leit að nýjum forstöðumanni.

Ný stjórn verður kynnt ásamt nýjum forstöðumanni þegar búið er að ráða í stöðuna. Félagið hefur vaxið mikið á síðustu 2-3 árum og er eitt stærsta trúfélag Íslands, með tæplega tvö þúsund meðlimi, samkvæmt nýjustu tölum frá Þjóðskrá. Zuism byggir á súmerskum trúabrögðum sem eru hin elstu í heimi og flest önnur trúarbrögð byggja á. Zuism er eina trúfélagið á Íslandi sem endurgreiðir meðlimum sóknargjöldin.

,,Ég hef ákveðið að hætta sem forstöðumaður og um leið stjórnarformaður Zuism. Þessi ákvörðun hefur legið lengi í loftinu eftir að hafa gegnt starfinu í fjögur ár. Þessi ár hafa verið mjög krefjandi, meðal annars að stýra fyrstu endurgreiðslu sóknargjalda á Íslandi og koma upp athöfnum á vegum félagsins. Mínar bestu minningar frá þessum tíma er einmitt þær giftingar sem ég hef framkvæmt. Ég vil þakka öllum sem hafa staðið á bakvið félagið og er ég sannfærður að bæði ný stjórn og forstöðumaður muni gæta hagsmuna félagsmeðlima og stefnu félagsins,“ segir Ágúst og bætir við að staða forstöðumanns verði auglýst á næstunni.

Gleðilegt Amargi

Kæru Zúistar, búið er að greiða þeim sem sóttu um Amargi þetta árið. Upphæðin í ár er 9.310 kr. og vonum við að það nýtist félagsmönnum vel. Ef einhverjar spurningar vakna upp í kringum Amargi er bent á að hafa samband í gegnum heimasíðu félagsins zuism.is.

Yfirlýsing frá trúfélaginu Zuism

Vegna umfjöllunar um trúfélagið Zuism á Vísi í dag vill félagið koma eftirfarandi atriðum á framfæri.

Zuism er eitt stærsta trúfélag landsins en meðlimir trúfélagsins eru nú um tvö þúsund talsins. Starfsemi félagsins gengur vel en röng mynd er dregin upp af starfsemi félagsins í frétt Vísis. Trúfélagið býður upp á og hefur framkvæmt ýmsar vígsluathafnir, eins og brúðkaup og skírnir á síðustu vikum. Hvetjum við áhugasama til að nýta sér þá þjónustu. Það er því rangt og úr lausu lofti gripið að trúfélagið sé ekki virkt.

Þá fóru endurgreiðslur á sóknargjöldum til meðlima fram á síðasta ári líkt og lofað hafði verið. Umsóknir fyrir endurgreiðslur þessa árs hófust 1. nóvember sl. og standa til 30. nóvember nk. Við hvetjum alla meðlimi trúfélagsins til þess að nýta sér þennan valkost, ella láta féð renna til góðgerðarfélaga. Zuism er ekki eina trúfélagið sem fær sóknargjöld en það er það eina sem býður meðlimum sínum að fá þau endurgreidd.

Varðandi meint húsnæðisleysi félagsins þá óskaði félagið eftir því við Reykjavíkurborg að fá aðstöðu fyrir félagið eins og mörg önnur trúfélög hafa fengið en því var hafnað. Félagið hefur því í staðinn leigt aðstöðu á meðan leitað er eftir varanlegu húsnæði fyrir starfsemina. Í því sambandi hefur stjórn félagsins í hvívetna leitast við að lágmarka kostnað svo að peningar félagsins nýtist sem best til góðra starfa.

Rétt er að taka fram að Snæbjörn Guðmundsson og Ísak Andri Ólafsson voru aldrei við stjórnvölinn í trúfélaginu Zuism. Með því að villa á sér heimildir gagnvart Halldóri Þormari Halldórssyni, fulltrúa sýslumannsins á Norðurlandi eystra, tókst Ísaki Andra að hljóta stöðu forstöðumanns í trúfélaginu tímabundið. Í kjölfarið handvaldi hann nýja stjórn, þ.m.t. Snæbjörn Guðmundsson, en líkt og kemur fram í fréttinni úrskurðaði innanríkisráðuneytið skipan Ísaks Andra ólögmæta. Ekki þurfti að taka sérstaklega afstöðu til hinnar handvöldu stjórnar Ísaks Andra enda var hún bersýnilega ólögmæt þar sem hún hlaut aldrei kjör í samræmi við lög trúfélags Zuism. Snæbjörn og Ísak Andri hafa ítrekað villt á sér heimildir og talið utanaðkomandi aðilum trú um að þeir væru við völd í trúfélaginu, þrátt fyrir að hafa strax á fyrstu skrefum verið tilkynnt af stjórn félagsins að þeir störfuðu í trássi við lög félagsins, líkt og innanríkisráðuneytið staðfesti.

Fyrir hönd Zuism
Ágúst Arnar Ágústsson, forstöðumaður Zuism.