Zuistar afhentu 1,1 milljón króna til Barnaspítala Hringsins

Trúfélagið Zuism afhenti í dag 1,1 milljón króna til styrktar Barnaspítala Hringsins. Stjórn Zuism ákvað að láta upphæð að andvirði sóknargjalda þeirra sem sagt hafa sig úr félaginu að undanförnu renna í þetta góða málefni.

,,Við erum stolt af því að fyrsti styrkur Zuism til Barnaspítala Hringsins sé orðinn að veruleika og vonum að þeir geti orðið fleiri í framtíðinni með hjálp félagsins. Ákveðið var að styrkja Barnaspítalann að upphæð 1.100.000 kr. til tækjakaupa á búnaði til að auðvelda nálaísetningar hjá ungum börnum fyrir bráðamóttöku. Mikið var spurt um hvað yrði um sóknargjöld þeirra sem sögðu sig úr félaginu. Í staðinn fyrir að láta þá fjármuni renna til reksturs félagsins ákvað stjórnin að láta þá renna til Barnaspítala Hringsins. Við þökkum stuðninginn frá meðlimum félagsins og vonumst til að geta haldið áfram uppbyggingu í samfélaginu með þeirra aðstoð,“ segir Ágúst Arnar Ágústsson, forstöðumaður félagsins.

Ágúst segir ennfremur að félaginu hafi borist mikið af baráttukveðjum og góðum hugmyndum á síðustu dögum. ,,Það er gaman að sjá fleiri meðlimi taka virkan þátt í umræðunni. Félagið vill endilega hvetja þá meðlimi sem vilja koma að starfsemi félagsins á einhvern hátt að hafa samband i gegnum heimasíðu félagsins zuism.is,“ segir hann.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *